Viðskiptakort
Viðskiptakort Hagkaups er greiðslukort sem ætlað er fyrirtækjum sem eru í viðskiptum við Hagkaup. Kortið leysir hefðbundin reikningsviðskipti af hólmi og er beiðnakerfi því í leiðinni afnumið sem kemur til með að verða bæði Hagkaup og viðskiptavinum til bóta.
Í boði er val milli þess hvort kortið sé handahafakort eða skráð á einstaka starfsmenn. Handhafakortið er skráð á ákveðna deild innan fyrirtækis og hefur skráðan ábyrgðarmann/tengilið. Kort skráð á einstaka starfsmenn er með nafni þess sem mun nota kortið, en slíkt eykur töluvert öryggi og kostnaðarvitund starfsmanna. Með notkun viðskiptakorts Hagkaups býðst fyrirtækjum einnig að fá aðgang að færslusíðu Hagkaups. Hægt er að óska eftir því að fá rafræna reikninga senda með hverri úttekt eða afrit af reikningi á tölvupósti þegar sótt er um kortið eða með því að senda póst á kort@hagkaup.is.
Úttektartímabilið er 1.-31. hvers mánaðar og greiðsludagur er 20. næsta mánaðar. Rukkað er fyrir stofngjald korts (kr. 1.000), endurútgáfu glataðs korts (kr. 700) og seðilgjald fyrir hverju úttektartímabili (kr. 75)
Þjónusta við korthafa fer fram í gegnum kort@hagkaup.is og neyðarsími á skrifstofutíma er 5635050. Til að tilkynna glatað kort utan skrifstofutíma má hafa samband við sjóðsstjóra í næstu Hagkaups verslun sem kemur skilaboðum áleiðis til fjármálastjóra.
Hér má finna Umsókn um kort
Skilmálar
1. Um þetta skjal
1.1. Hér er að finna upplýsingar um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram þegar þú sækir um og notar Hagkaupskortið.
1.2. Hagkaupskortið (hér nefnt kortið) er úttektarkort, tengt viðskiptareikningi, sem gefið er út af smásölufyrirtækinu Hagkaupi, kt. 430698-3549, Skútuvogi 5, 104 Reykjavík (hér nefnt ábyrgðaraðili) en það er ábyrgðaraðili þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram í tengslum við útgáfu og notkun kortsins. Erindi sem tengjast vinnslunni er hægt að senda í tölvupósti á netfangið personuvernd@hagar.is.
1.3. Í þessari persónuverndarstefnu er fjallað um hvaða persónuupplýsingar við vinnum með í tengslum við kortið, tilgang vinnslunnar og heimildir fyrir henni, miðlun persónuupplýsinga og geymslutíma þeirra, auk ýmissa annarra atriða um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer í tengslum við kortið.
2. Tegundir persónuupplýsinga, tilgangur vinnslunnar og heimildir fyrir henni
2.1. Til þess að við getum unnið úr umsókn þinni um kortið og veitt þér þá þjónustu sem boðið er upp á í tengslum við það þurfum við að vinna með margs konar persónuupplýsingar, í ýmiss konar tilgangi og á grundvelli ólíkra heimilda. hér að neðan eru taldar upp þær tegundir persónuupplýsinga sem við öflun um þig, ýmist beint frá þér eða annars staðar frá:
2.2. Tengiliðaupplýsingar, þ.e. nafn, kennitala, heimilisfang og netfang: Þetta eru upplýsingar sem við öflum beint frá þér. Þær eru okkur nauðsynlegar svo hægt sé að stofna kortareikning og tryggja að við sendum kortið og tilkynningar vegna þess á réttan stað, til að gefa okkur kost á að eiga í samskiptum um kortið og notkun þess og til að tryggja að réttur viðskiptavinur sé skráður sem reikningshafi og korthafi, svo sem vegna reikningagerðar og ef kemur til vöruskila. Okkur er því nauðsynlegt að vinna með þessar upplýsingar vegna samnings þíns við okkur um útgáfu og notkun kortsins, sem og vegna lagaskyldu sem hvílir á okkur, einkum vegna laga um neytendakaup, virðisaukaskatt og bókhald. Við leggjum okkur fram um að lágmarka þær persónuupplýsingar sem við vinnum með um þig.
2.3. Upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust, þ.e. upplýsingar frá fjárhagsupplýsingastofu um hvert lánshæfismat þitt er og hvort þú sért á vanskilaskrá. Þessara upplýsinga er aflað í þeim tilgangi að ákveða fjárhæð úttektarheimildar og verja ábyrgðaraðila gegn fjárhagslegum áföllum vegna útgáfu korta til umsækjenda sem ekki standa í skilum með skuld af kortareikningi sínum. Þessi vinnsla er forsenda þess að ábyrgðaraðili sé tilbúinn að gefa út kortið og því er áskilið að umsækjandi veiti í umsóknarferlinu sérstakt samþykki sitt fyrir þessum persónuverndarskilmálum og þar með þessari vinnslu. Vinnslan byggir því á samþykki hins skráða.
2.4. Greiðsluupplýsingar, þ.e. upplýsingar um númer kortsins, dags. og tímasetningu hverrar úttektar á kortið: Okkur er nauðsynlegt að vinna með þessar upplýsingar til að gæta að umsömdum úttektarmörkum kortsins, til að uppfylla bókhaldsskyldur okkar og til að geta veitt kost á bakfærslu og endurgreiðslu á keyptum vörum. Því er okkur nauðsynlegt að vinna með þessar upplýsingar vegna samnings þíns við okkur um útgáfu og notkun kortsins og vegna lagaskyldu okkar, svo sem samkvæmt lögum um bókhald.
2.5. Upplýsingar um vörukaup þín hjá okkur, þ.e. hvaða vörur þú keyptir, hvenær og fyrir hvaða upphæð: Við vinnum með þessar upplýsingar, eins og með tengiliðaupplýsingarnar, sbr. hér að framan, í þeim tilgangi að geta selt og sent þér viðkomandi vörur og til að geta veitt kost á bakfærslu og endurgreiðslu á keyptum vörum. Okkur er því nauðsynlegt að vinna með þessar upplýsingar annars vegar vegna samnings þíns og okkar og hins vegar vegna lagaskyldu sem hvílir á okkur.
2.6. Auk þess að vinna með persónuupplýsingar notum við margs konar ópersónugreinanlegar upplýsingar til að starfrækja kortaútgáfu okkar, t.d. tölfræðilegar upplýsingar um hversu mikil velta er með kortunum á hvaða dögum o.s.frv. Engar slíkar upplýsingar er hægt að rekja til tiltekins viðskiptavinar heldur er einungis um að ræða ópersónugreinanlegar upplýsingar um hópa viðskiptavina.
3. Miðlun persónuupplýsinga
3.1. Þeim persónuupplýsingum um þig sem við vinnum með vegna kortaútgáfunnar miðlum við ekki til þriðja aðila, svo sem til utanaðkomandi vinnsluaðila til dæmis til geymslu eða bókhaldsþjónustu, nema í eftirtöldum tilvikum:
3.2. Bókhaldsgögn eru afhent innlendum endurskoðendum okkar eftir því sem þeir kunna að óska eftir lögum samkvæmt. 3.3. Við áskiljum okkur rétt til að hlíta fyrirmælum þar til bærra íslenskra dómstóla og eftirlitsstofnana um afhendingu Persónuverndarskilmálar fyrir Hagkaupskortið bls. 2 af 2 útg. 1.0 gagna, þar á meðal þeirra sem kunna að innihalda persónuupplýsingar.
3.4. Afrit af gögnum eru vistuð hjá vottuðum vinnsluaðila okkar innan EES.
4. Geymslutími
4.1. Geymslutími þeirra persónuupplýsinga sem við vinnum með ræðst af þeim tilgangi sem þeirra er aflað í og þeirri heimild sem vinnslan byggist á. Þannig geymum við tengiliðaupplýsingar þínar á meðan á viðskiptum með kortið stendur. Rétt er að ítreka að korthafar geta ávallt látið loka kortum sínum og reikningshafar kortareikningum sínum í samræmi við viðskiptaskilmála fyrir kortið sem í gildi eru á hverjum tíma.
4.2. Ef umsókn þín um kort er ekki samþykkt eru þær persónuupplýsingar sem ábyrgðaraðili býr yfir um þig í tengslum við umsóknina geymdar í þrjá daga og getur þú innan þess tíma óskað upplýsinga um ástæður höfnunarinnar en að þeim tíma liðnum er þeim eytt.
4.3. Ef umsóknin er samþykkt eru er unnið með aðrar persónuupplýsingar um þig, þ.e. upplýsingar um vörukaup þín ásamt greiðsluupplýsingum í þann tíma sem okkur er skylt vegna ákvæða í lögum um bókhald í lögum, þ.e. nú í minnst 7 ár en ekki lengur en í 10 ár.
5. Réttindi þín
5.1. Þar sem við vinnum, eins og kemur fram hér að framan, með persónuupplýsingar um þig þá hefur þú margs kyns réttindi sem mikilvægt er að þú vitir af:
5.2. Þú átt rétt á að óska eftir aðgangi að og afriti af persónuupplýsingum þínum hjá okkur, láta okkur leiðrétta þær ef þær eru rangar eða villandi eða láta okkur eyða þeim ef við höfum ekki lengur heimild til að vinna með þær. Þessum réttindum er nánar lýst í lögum um persónuvernd, sbr. nú 17. og 20. gr. laga nr. 90/2018, Þá átt þú samkvæmt síðarnefndu lagagreininni rétt á að flytja eigin gögn eða að við takmörkum vinnslu persónuupplýsinga um þig, að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Þú átt einnig rétt á að andmæla vinnslunni skv. 21. gr. laganna.
5.3. Þú átt rétt á að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd vegna vinnslunnar. Skrifstofa hennar er að Rauðarárstíg 10, 105 Reykjavík og netfang hennar er postur@personuvernd.is.
6. Gildandi lög og samningsvarnarþing
6.1. Um viðskiptaskilmála þessa gilda íslensk lög. Rísi dómsmál um ágreining milli aðila í tengslum við þá skal það mál rekið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.
6.2. Þessi útgáfa persónuverndarskilmálanna er frá 30. nóvember 2021 og gildir um alla vinnslu sem á sér stað frá og með þeim degi.
1. Um kortið og skilmálana
1.1. Hagkaupskortið (hér nefnt kortið) er úttektarkort, tengt viðskiptareikningi, sem gefið er út af smásölufyrirtækinu Hagkaupi, kt. 430698-3549, Skútuvogi 5, 104 Reykjavík (hér nefnt útgefandi). Hagkaup er í eigu félagsins Hagar verslanir ehf., kt. 470710-0390. Vefsíða útgefanda er á vefslóðinni kort.hagkaup.is og netfang hans er kort@hagkaup.is.
1.2. Kort eru einungis gefin út á viðskiptareikning viðskiptavinar hjá útgefanda (hér nefndur kortareikningur). Sá sem gerir samning um kortareikninginn (hér nefndur reikningshafi) getur fengið gefið út kort fyrir sig sjálfan og/eða fyrir aðra með heimild til úttektar á kortareikninginn. Kortareikningur stofnast þegar fyrsta umsókn reikningshafa um kort er samþykkt. Hægt er að sækja um eitt eða fleiri kort á hvern kortareikning og fá kort gefin út á nafn skráðra notenda þeirra (hér nefndir korthafar) eða sem handhafakort.
1.3. Kortið er eign útgefanda og honum er heimilt að innkalla það án fyrirvara ef hann telur nauðsyn krefja, svo sem ef öryggisgalli kemur upp í kortunum eða reikningshafi eða útgefandi fara ekki að skilmálum þessum (hér nefndir viðskiptaskilmálarnir).
1.4. Viðskiptaskilmálarnir innihalda þær reglur sem gilda um kortið, þar á meðal útgáfu og notkun þess. Þeir eru ávallt aðgengilegar á vefsíðu útgefanda. Útgefandi hefur rétt til að breyta viðskiptaskilmálunum án samþykkis korthafa en skal tilkynna þeim um sérhverjar breytingar eigi síðar en 15 dögum áður en þær skulu taka gildi. Í tilkynningunni skal taka fram í hverju breytingarnar felist og minnt á rétt korthafa til að slíta viðskiptum um kortið. Fallist korthafi ekki á breytta viðskiptaskilmála, getur hann slitið viðskiptum með því að klippa í sundur Hagkaupskortið og senda það sundurklippt til útgefanda. Kjósi korthafi að slíta ekki viðskiptum um kortið telst korthafi hafa samþykkt breytingarnar með því að nota kortið eftir að breytingarnar hafa tekið gildi. Birting breytinganna á vefsíðu útgefanda telst nægileg tilkynning samkvæmt framangreindu.
2. Útgáfa kortsins
2.1. Sótt er um kortið á framangreindri vefsíðu útgefanda. Hafi umsækjandi staðfest að hafa kynnt sér vandlega og samþykkt bæði viðskiptaskilmálana og persónuverndarskilmála fyrir kortið (hér nefndir persónuverndarskilmálarnir) tekur útgefandi umsóknina til skoðunar.
2.2. Að fenginni umsókn hefur útgefandi rétt til að leita upplýsinga frá fjárhagsupplýsingastofu um fjárhagsmálefni og lánstraust umsækjanda í samræmi við persónuverndarskilmálana.
2.3. Sé umsókn hafnað tilkynnir útgefandi umsækjanda um það í tölvupósti. Sé hún samþykkt stofnar útgefandi úttektarreikning fyrir reikningshafa, hafi sá reikningur ekki þegar verið stofnaður, gjaldfærir á hann stofngjald samkvæmt gjaldskrá sinni og ákveður úttektarheimild fyrir kortareikninginn. Því næst sendir útgefandi sérhverjum korthafa upplýsingar um útgáfuna í tölvupósti og sendir honum kortið óvirkt í bréfapósti. Samhliða sendir útgefandi rafrænt skjal í netbanka korthafa með hlekk til að virkja kortið. Að ósk korthafa er hægt að fá hlekkinn sendan í tölvupósti ef um staðfest netfang er að ræða.
2.4. Þegar korthafa berst kortið skal hann virkja það með því að smella á hlekk í rafrænu skjali í netbanka sínum frá útgefanda.
3. Notkun kortsins
3.1. Öll notkun kortsins skal vera alfarið á ábyrgð reikningshafa. Týnist eða glatist kortið ber reikningshafi ábyrgð á notkun þess þar til hann hefur tilkynnt kortið glatað til útgefanda á framangreint netfang hans og útgefandi hefur lokað fyrir notkun þess. Útgefandi gefur þá jafnan út nýtt kort og reikningsfærir gjald skv. gjaldskrá á kortareikning.
3.2. Óheimilt er að nota kort sem tilkynnt hefur verið glatað. Finnist það aftur skal það sent útgefanda sundurklippt.
3.3. Notkun kortsins er með öllu óheimil nema í samræmi við ákvæði viðskiptaskilmálanna.
3.4. Notkun handhafakorta er einungis heimil þeim sem hafa heimild reikningshafa til notkunar þess. Notkun korts sem gefið er út á nafn er einungis heimil þeim korthafa.
3.5. Korthafa er skylt að varðveita kortið þannig að óviðkomandi aðili geti ekki komist yfir það.
3.6. Notkun kortsins er einungis heimil í verslunum útgefanda.
3.7. Korthafa er heimilt að greiða inn á þann kortareikning sem kort hans er tengt við. Þegar útgefanda hefur borist tilkynning um greiðsluna, ásamt kvittunn fyrir henni, á framangreint netfang sitt útbýr hann innborgun á kortareikninginn og uppfærir stöðu hans.
3.8. Korthafi skal tafarlaust tilkynna útgefanda verði breyting á heimilisfangi eða netfangi hans til að tryggja að yfirlit og aðrar upplýsingar geti borist honum með eðlilegum hætti.
3.9. Útgefandi sendir reikningshöfum mánaðarlega rafrænt reikningsyfirlit yfir úttektir með kortum tengdum viðkomandi kortareikningi á nýliðnu kortatímabili en hvert kortatímabil er ýmist almanaksmánuður eða frá 27. degi mánaðar til 26. dags næsta mánaðar.
3.10. Reikningshafa er skylt að greiða að fullu heildarfjárhæð reikningsyfirlits yfir úttektir nýliðins kortatímabils eigi síðar en á eindaga sem er 20. dagur næsta mánaðar eftir lok viðkomandi kortatímabils.
3.11. Hafi greiðsla ekki borist útgefanda á eindaga leggjast dráttarvextir á hina gjaldföllnu skuld, eins og þeir eru auglýstir af Seðlabanka Íslands hverju sinni, frá eindaga til greiðsludags. Útgefandi hefur rétt til að loka fyrir frekari notkun kortsins þar til hin gjaldfallna skuld hefur verið greidd að fullu. Hafi hún ekki verið greidd að fullu 60 dögum eftir eindaga hefur útgefandi rétt til að fella úr gildi viðkomandi kortareikning og öll útgefin kort á hann og fela lögfræðingi skuldina til innheimtu á kostnað korthafa.
3.12. Kaup á vöru sem keypt er með kortinu í verslun útgefanda skulu lúta sömu kaupskilmálum og aðrar vörur sem keyptar eru í umræddri verslun, þar á meðal kaup á vöru í vefverslun útgefanda.
3.13. Sé vörum skilað sem keyptar hafa verið með kortinu skal útgefandi, eftir því sem við á, framkvæma endurgreiðsluna með því að færa fjárhæð jafn háa verði hinnar skiluðu vöru aftur inn á kortareikning fyrir sama kortið eða, sé kortið ekki lengur til þegar vörunum er skilað, með því að færa fjárhæð jafn háa verði hinnar skiluðu vöru inn á inneignarnótu sem útgefandi gefur út og (i) afhendir í verslun sinni, þegar um er að ræða endurgreiðslu fyrir vörur sem keyptar voru í verslun útgefanda, eða (ii) sendir með tölvupósti á netfang þess viðskiptavinar sem keypti með kortinu, þegar um er að ræða endurgreiðslu fyrir vörur sem keyptar voru í vefverslun útgefanda.
3.14. Reikningshafi getur ávallt fengið upplýsingar um stöðu á kortareikningi sínum og korthafi upplýsingar um úttektir af korti sínu með því að skrá sig, á vefsíðu útgefanda, inn í umsjónarkerfi fyrir viðskiptavini. Þar geta þeir sýslað með kortin sín og fengið upplýsingar um þau, kallað fram hreyfingalista og sótt kvittanir. Þá geta reikningshafar að auki fengið upplýsingar um stöðu á viðskiptareikningum, breytt og bætt við notendum og fryst, affryst og lokað kortum.
4. Gildistími kortsins
4.1. Snertilaust kort gilda í fjögur ár í senn en segulrandarkort í tvö ár í senn. Kort eru endurútgefin sjálfkrafa, án umsóknar, fari korthafi, þ.á m. reikningshafi, að viðskiptaskilmálunum. Vilji korthafi segja upp viðskiptum sínum skal það gert skriflega a.m.k. einum mánuði fyrir lok gildistíma kortsins. Berist uppsögn síðar skal korthafi greiða gjald vegna útgáfu nýs korts.
4.2. Útgefandi getur sagt upp viðskiptum með kortið með eins mánaðar fyrirvara. Honum er þó heimilt að segja viðskiptum upp án fyrirvara og loka bæði kortareikningi og öllum tengdum kortum án sérstakrar tilkynningar ef korthafi vanefnir skyldur sínar gagnvart útgefanda, ef fjárnám er gert hjá korthafa, fram kemur ósk um gjaldþrotaskipti hjá honum eða ef hann leitar nauðasamninga.
4.3. Korthafa er alfarið óheimilt að nota kort eftir að það hefur fallið úr gildi, hvort sem það er útrunnið, viðskiptum hefur verið sagt upp eða kortareikningi/korti hefur verið lokað. Vakin er athygli á að slík notkun kann að varða m.a. við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Korthafi skal skila kortinu án tafar sundurklipptu til útgefanda og hefur útgefandi fulla heimild á að taka í vörslur sínar kort sem eru fallin úr gildi.
5. Gildandi lög og samningsvarnarþing
5.1. Um viðskiptaskilmála þessa gilda íslensk lög. Rísi dómsmál um ágreining milli aðila í tengslum við þá skal það mál rekið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.
5.2. Útgefanda er allt að einu heimilt að leita aðstoðar dómstóla og stjórnvalda hvar í heimi sem er til framkvæmdar aðfarargerða eða annarra sambærilegra ráðstafana til að tryggja réttindi sín og fá skyldur samkvæmt samningnum uppfylltar.
5.3. Þessi útgáfa viðskiptaskilmálanna er frá 6. júní 2022 og gildir um alla vinnslu sem á sér stað frá og með þeim degi.