24. September 2024

Haust blómkálssúpa

Haustið er súputími, þegar ferskt íslenskt grænmeti flæðir um verslanir Hagkaups. Helga Magga segist elska við súpur hvað það er einfalt að búa þær til, grænmetið þarf bara að skera gróflega niður en svo finnst mér alltaf best að mauka súpur með töfrasprota í lokin svo þær verði silkimjúkar. Þannig er líka best að gefa börnum súpu.

Þessi blómkálssúpa er með ristuðum kjúklingabaunum sem gott er að setja ofan á hvern disk þegar súpan er borin fram. 

Innihald:

Blómkálshaus 700 g
1 dós kjúklingabaunir
2 - 3 gulrætur
1 laukur
3 hvítlauksrif
Olía
2 tsk better than bouillon kjúklingakraftur
1 l vatn
500 ml matreiðslurjómi
1 tsk turmerik krydd frá Kryddhúsinu
Salt og pipar
Chilli krydd, sítrónupipar og hvítlaukskrydd.
Skraut ofaná í lokin ferskt dill og sprettur frá Vaxa

Hellið vatninu af kjúklingabaununum og skolið, mér finnst gott að taka hýðið af þeim en það er smekksatriði. Setjið baunirnar í skál og þerrið þær örlítið með pappír. Hellið olíu á baunirnar og kryddið þær með hvítlaukskryddi, chilli og sítrónupipar. Setjið kjúklingabaunirnar á bökunarpappír og bakið við 180 gráður í 35 mínútur.

Blómkálshausinn sem ég var með var mjög stór svo ég notaði rétt rúmlega helminginn af honum.

Skerið blómkálið í bita og setjið á bökunarplötu, hellið olíu yfir og kryddið með salti, pipar og hvítlauk. Blómkálið sett í ofnin með kjúklingabaununum og bakað í um 30 mínútur.

Laukurinn, gulræturnar og hvítlaukurinn skorin í bita og steikt upp úr olíu í potti í nokkrar mínútur. Kryddað með salti og pipar. Turmerikið er svo sett út í pottinn ásamt vatninu og kjúklingakraftinum. Það má einnig nota grænmetiskraft í stað kjúklingakrafts. Þegar blómkálið er tilbúið úr ofninum er því hellt út í pottinn. Súpan er maukuð með töfrasprota í lokin og matreiðslurjómanum svo blandað saman við maukuðu súpuna.

Súpan borin fram með ristuðu kjúklingabaunumum og súrdeigsbrauði. Svo er afar fallegt að setja smá grænt ofan á hvern disk, ég var með ferskt dill og sprettur frá Vaxa.