3. Febrúar 2025
Frábærar viðtökur á Build-A-Bear bangsaverksmiðjunni
Hagkaup opnuðu á laugardaginn Build-A-Bear bangsaverksmiðju í verslun sinni í Smárlind við mikinn fögnuð viðstaddra. Margt fólk lagði leið sína í Smáralind á laugardaginn til þess að kíkja á bangsaverksmiðjuna en röð myndaðist töluvert fyrir opnun.
Það var svo hann Kjartan Flosi, fimm ára sem aðstoðaði lukkudýr Build-A-Bear við að klippa á borðann og opna formlega verksmiðjuna og fékk í kjölfarið að fara fyrstur í gegnum þá upplifun að útbúa bangsann sinn í Hagkaup Smáralind
Í bangsaverksmiðju Build-A-Bear gefst viðskiptavinum tækifæri til þess að búa til sinn persónulega bangsa en mikið er lagt uppúr upplifun og því að skapa minningar í verksmiðjunni.
,,Það var mikil spenna hjá viðstöddum sem voru mætt hér í Smáralindina allt að klukkutíma áður en við opnuðum. Við erum virkilega þakklát fyrir viðbrögðin og þolinmæðina því viðskiptavinir lögðu á sig töluverða bið eftir því að komast að. Álagið varð að vísu svo mikið um tíma að áfyllingarvélin sem fyllir bangsana bilaði, við þurftum því að handfylla bangsana í smá stund og orsakaði það smá spennu á allan hópinn. Við þurftum aðeins að biðja viðskipta vini að hinkra meðan verið var að greina bilunina en allt gekk upp á endanum og við segjum fall er farar heill.” Segir Lilja Gísladóttir sérfræðingur markaðsmála hjá Hagkaup.
Eftirvæntingin fyrir Build-A-Bear er sannarlega mikið en þegar starfsfólk Hagkaups opnaði kl.12:00 á sunnudag hafði myndast löng röð fyrir utan verslunina og þar varð annar stór og skemmtilegur bangsadagur í Smáralind.
Bangsaverksmiðja Build-A-Bear verður áfram opin í samræmi við opnunartíma Hagkaups í Smáralind.