4. Apríl 2025
Egg Benedict og bröns
Berglind sem er með Gotterí og gersemar segir alls ekki flókið að útbúa Egg Benedict og hér koma hugmyndir fyrir ljúffengan bröns eða dögurð á góðri íslensku. „Allt hráefni er keypt í Hagkaup og ég elska hvað það er til mikið tilbúið gúrm þar! Það auðveldar samsetningu og sparar tíma í undirbúningi án þess að það komi niður á gæðunum. Hér er til dæmis allt keypt tilbúið og raðað á borð nema ég útbjó Egg Benedict frá grunni“.
Egg Benedict uppskrift 6 stk.
3 x Manhattan English Muffins
Beikonskinka og/eða reyktur lax
Hleypt egg (sjá aðferð að neðan)
Hollandise sósa (sjá uppskrift að neðan)
Pipar
Smjör til steikingar
Skerið English Muffins í sundur svo þið fáið 6 helminga. Steikið upp úr smjöri við meðalháan hita og leggið á disk. Setjið næst beikonskinku/eða reyktan lax, hleypt egg og toppið með vel af hollandaise sósu og smá pipar.
Hleypt egg aðferð
6 egg
1 l vatn
1 msk. edik
Hitið vatnið að suðu og bætið ediki saman við. Brjótið eggin í bolla, eitt í einu. Snúið skeið í hringi í pottinum til að mynda hringsog í miðjunni og hellið egginu varlega í miðjuna og leyfið því að vera í pottinum í 2 ½ – 3 ½ mínútu eftir því hversu blauta þið viljið hafa rauðuna. Veiðið eggið þá upp úr með spaða/gatasigti og leggið ofan á skinkuna/laxinn (einnig má safna eggjunum saman á eldhúspappír og setja síðan ofan á brauðið).
Hollandaise sósa uppskrift
3 eggjarauður
1 msk. vatn
½ sítróna (safinn)
180 g smjör (brætt)
Salt, cheyenne pipar
Setjið eggjarauður, vatn og sítrónusafa í þrönga könnu/ílát sem töfrasproti kemst ofan í. Bræðið smjörið og hellið yfir í mælikönnu. Þeytið eggjarauðublönduna stutta stund og á meðan töfrasprotinn er enn í gangi megið þið bæta brædda smjörinu saman við í mjórri bunu og þeyta allan tímann. Þeytið þar til sósan hefur þykknað og njótið sem fyrst. Ef sósan verður of þykk má þynna hana með því að setja 1 msk. af volgu vatni saman við í einu og þeyta saman.
Annað gott hráefni fyrir brönsinn
Súrdeigsbrauð með jalapeno frá Hagkaup
Tilbúin brauðsalöt frá Hagkaup
Tilbúnir niðurskornir ávextir (ananas og vatnsmelóna)
Steikt beikon
Jarðarber, brómber eða önnur ber/ávextir sem hugurinn girnist
Tilbúnar frosnar pönnukökur með sýrópi og berjum
Kleinuhringir með súkkulaði (fást frosnir í Hagkaup)
Lítil súkkulaðiegg
Gleðilega páska!