16. Desember 2024
Húsó-draumatertan
Fyrir jólin er ómissandi að líta inn hjá Mörtu Maríu Arnarsdóttur skólameistara Hússtjórnaskólans. Hún var ung að árum þegar amma hennar og nafna kenndi henni að baka randalínu, dekka borð og bjóða ástvinum í fallegt kaffiboð. Marta María gerir allt sem hún kemur nálægt fallegra og deilir hér með lesendum blaðsins nokkrum góðum Húsó-uppskriftum, en einnig uppskriftum frá sér sjálfri.
Döðlusúkkulaðibotnar 2 stk.
3 egg
¾ bolli sykur
2 bollar döðlur, smátt saxaðar
100 g saxað súkkulaði
¾ bolli hveiti
1 tsk. lyftiduft
Þeytið egg og sykur létt og ljóst. Blandið saman hveiti, lyftidufti, döðlum og súkkulaði og blandið varlega saman við þeyttu eggjablönduna. Setjið í tvö springform eða önnur hringlaga form (24-26 sm) klædd með bökunarpappír. Bakið við 175-180°C í u.þ.b. 10- 15 mínútur. Kælið.
Marens Botnar 2 stk.
4 eggjahvítur
200 g sykur
Stífþeytið eggjahvítur og sykur mjög vel. Teiknið 2 hringi á bökunarpappír, jafnstóra og formið undan döðlubotnunum. Smyrjið marensinum jafnt á pappírinn. Bakið við 130°C í um það bil eina klukkustund.
Eggjakrem fyrir 2 tertur
4 eggjarauður
3 msk. sykur
2½ dl rjómi
Þeytið rjómann. Þeytið eggjarauður og sykur saman, létt og ljóst. Blandið síðan þeytta rjómanum varlega saman við. Samsetning: Setjið döðlubotn á fat, má til dæmis bleyta hann aðeins upp með sérrí eða ávaxtasafa. Sneiðið 1-2 banana og raðið ofan á botninn (3-4 bananar á tvær tertur). Setjið eggjakremið þar yfir. Setjið svo marensbotn yfir eggjakremið. Þeytið 2 og ½ dl af rjóma á hverja köku (5 dl samanlagt á tvær) og smyrjið yfir. Frystið nú kökuna/kökurnar tvær. Hæfilegt er að taka kökuna úr frosti um 2-3 klukkustundum áður en hún er borin á borð. Þá þarf strax að búa til súkkulaðibráð sem sett er yfir kökuna þegar hún er tekin úr frosti.
Súkkulaðibráð fyrir tvær tertur
400 g suðusúkkulaði – brætt yfir gufu, eða í örbylgjuofni. Passið að ofhita það ekki.
4 msk. þeyttur rjómi
4 eggjarauður
8 msk. vatn
Hrærið eggjarauðum og vatni saman við súkkulaðið, einnig rjómann. Blandið vel saman. Hellið kreminu síðan yfir kökuna og setjið hana í kæli um stund, eða í frysti. Skera má kökuna í sneiðar og skreyta hana sem stakar tertusneiðar, til dæmis með rjómatopp, súkkulaðiskrauti og blæjuberi eða bera hana fram heila skreytta með rjóma. Geymist vel í frosti – tilbúin.