17. Desember 2024

Jólaleg sætindi

Eftirréttameistarinn Ólöf Ólafsdóttir mælir með því að við prófum okkur áfram með liti og form þessi jólin. Þó að Ólöf sé þekkt fyrir að gera flottustu eftirrétti landsins þá hefur hún þá hæfileika að einfalda uppskriftir og gera þær þannig að allir geti á einfaldan hátt búið þá til heima.

Grænn makkarónukrans
TPT (tant pour tant sem er 150 g möndlumjöl og 150 g flórsykur)

Rétt svo blandið þessu saman í matvinnsluvél og sigtið. Geymið þetta saman í 24 tíma.

55 g eggjahvítur
Grænn matarlitur
150 g sykur
55 g vatn

Blandið TPT, eggjahvítum og græna matarlitnum saman. Byrjið á sykursírópinu með að sjóða sykurinn og vatnið í potti upp í 118°c. Á meðan sírópið er að ná réttu hitastigi eru eggjahvíturnar settar í hrærivélarskál og léttþeyttar. Hellið svo sykursírópinu út í eggjahvíturnar og þeytið þar til marensinn kólnar og myndar stífa toppa. Blandið ⅓ af marensinum út í eggjahvítu- og möndlublönduna. Þegar þessu er blandað saman er svo afganginum af marensinum blandað varlega saman við í tveimur til þremur skömmtum. Sprautið skeljar á plötu og látið þær þorna aðeins eða þar til þið getið snert þær án þess að þær smitist á fingurna. Síðan eru þær bakaðar við 150°c í 8-10 mínútur á blæstri (fer eftir ofnum). Leyfið þeim að kólna og fyllið svo með pistasíu-ganache.

Fylling
Ein krukka af hvítsúkkulaði-spread frá Goodgood
50 g pistasíu krem (200 gr pistasíur ristaðar í ofni á 160°c í 10 mínútur, settar í matvinnsluvél í 5-7 mínútur).

Blandið þessu saman, setjið í sprautupoka og fyllið makkarónurnar.

Piparkökujólatré með apríkósumarmelaði, þeyttum rjóma og ostavanillukremi
12 g gelatín
1.140 g rjómi
4 vanillustangir
400 g hvítt súkkulaði
360 g rjómaostur

Leggið matarlím í bleyti. Hitið rjóma og vanillu í potti að suðu, bætið matarlíminu saman við og hellið yfir hvíta súkkulaðið. Blandið þessu saman með töfrasprota. Þegar súkkulaðið er bráðið er rjómaostinum blandað saman við. Kælið ganache-inn yfir nótt og þeytið hann síðan fyrir notkun. Passið að þeyta ekki of mikið til að koma í veg fyrir að ganachinn skilji sig.

Appelsínumarmelaði
Setjið þeytta rjómaostakremið í sprautupoka og sprautið doppum á annað tréð. Best er að byrja á að gera útlínurnar og fylla svo inn í. Setjið appelsínumarmelaðið einnig í sprautupoka og sprautið því í miðjuna á kökunni, passið að það fari ekki út í kantana. Leggið hitt piparkökutréð ofan á rjómaostakremið og sprautið fallegum doppum ofan á það. Skreytið að vild! Ég skreytti mitt tré með piparkökum, mandarínubátum, rósmaríni og calamansi.

Hvítsúkkulaði- og kampavínstrufflur
340 g hvítt súkkulaði
120 g kampavín
5 g sítrónusafi
60 g rjómi
60 g mjúkt smjör
1g salt
Fræ úr einni vanillustöng gullduft
500-600 g hvítt súkkulaði til að hjúpa með

Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði eða örbylgjuofni og setjið til hliðar. Sjóðið kampavínið í litlum potti þar til það hefur gufað upp um helming. Það eiga að vera sirka 60 g eftir í pottinum. Hitið rjóma og vanillu í potti að suðu og hellið yfir hvíta súkkulaðið, hrærið þessu saman með töfrasprota. Athugið að þetta verður mjög þykkt. Hellið kampavíninu smátt og smátt út í súkkulaðiblönduna ásamt sítrónusafanum og blandið saman með töfrasprota. Kælið súkkulaði- og kampavínsblönduna í 35- 40°c áður en þið blandið smjörinu saman við með töfrasprotanum. Setjið trufflurnar í skál og setjið inn í kæli. Þegar blandan hefur stífnað rúllið þá út litlum boltum, setjið á plötu og geymið inni í kæli á meðan þið temprið súkkulaðið. Dýfið köldum trufflunum í súkkulaðið og rúllið þeim í höndunum til að fá þunna og jafna skel. Þetta gefur trufflunum einnig fallega áferð. Rúllið þeim upp úr gullduftinu og njótið!

Rauðar hindberjarjómabollur
80 g sykur
40 g glúkósi eða ljóst maíssíróp (corn-síróp)
30 g hindberjapúrra (100 gr frosin hindber og 10 gr sykur í pott að suðu, sigta og kæla)
50 g eggjahvítur
Súkkulaðibitasmákökur
500 g hvítt súkkulaði
Fituuppleysanlegur matarlitur

Þegar sírópið hefur náð 118°c er hrærivélin stillt á mesta hraða og sykursírópinu hellt í mjórri bunu út í. Þeytið fyllinguna þar til hún er orðin köld. Setjið fyllinguna í sprautupoka með hringlaga stút og sprautið henni ofan á smákökurnar. Leyfið bollunum að standa við stofuhita í 3-4 klukkustundir eða þar til þær eru þurrar viðkomu. Temprið hvítt súkkulaði og blandið saman við rauða fituuppleysanlega matarlitnum. Dýfið bollunum í tempraða súkkulaðið og leyfið súkkulaðinu að harðna. Skreytið bollurnar að vild. Ég skreytti mínar með bleikum sykurperlum og þurrkuðum blómum.