11. Desember 2024
Jólalegt humarsalat og Ris á l´amande
Bjarki Þór Valdimarsson heldur úti samfélagsmiðlinum Matarmönnum þar sem ástríða hans skín í gegn í skemmtilegum uppskriftarmyndböndum. Hér matreiðir hann jólalegt humarsalat sem er dásamlega létt og ferskt yfir jólahátíðina.
Jólalegt humarsalat
20 miðlungsstórir humarhalar
150 g smjör
Steinselja
Sjávarsalt
Veislusalatblanda
2 appelsínur
Græn vínber
1 granatepli
Pistasíuhnetur
Camembert
Tómatar
Olía
Hvítlauksduft
Aðferð:
Skerið appelsínur, vínber, granatepli, camembert og tómata og hafið tilbúið til hliðar. Velgið smjör, setjið í skál og skerið steinseljuna smátt. Þeytið smjörið ásamt steinseljunni og bætið sjávarsalti og hvítlauksdufti við eftir smekk, geymið smjörið til hliðar. Humarinn skal skelfletta og garnhreinsa. Þerrið humarinn með pappír og geymið í kæli. Hitið ofninn í 200°C.
Tómatarnir fara í skál með smá ólífuolíu, sjávarsalti og hvítlauksdufti. Blandið vel saman. Setjið tómatana á ofnplötu og leyfið að eldast í 12-15 mínútur, takið út og geymið til hliðar. Á háum hita setjið þið væna klípu af þeytta smjörinu á pönnu, leyfið henni að hitna í rólegheitunum. Steikið humarinn í um mínútu á hvorri hlið og setjið til hliðar. Blandið nú öllu salatinu saman og reiðið fram meðan humarinn er enn volgur.
Dressing
½ bolli ólífuolía
Safi úr ½ appelsínu
1 msk. hunang
Ris á l´amande fyrir 6-8
1 bolli rís á l´amande-grjón
1¼ bolli vatn
2 msk. rifinn sítrónubörkur
Sjávarsalt eftir smekk
1 msk. sykur
2 msk. vanillusykur
4 bollar nýmjólk
100 g hýðislausar möndlur
Aðferð:
Blandið saman í pott grjónum, vatni, sítrónuberki, sykri, ögn af sjávarsalti og vanillusykri og hrærið saman. Potturinn er stilltur á hæstu stillingu og beðið eftir suðu. Leyfið að sjóða í þrjár mínútur þar til mjólkinni er bætt saman við. Leyfið öllu að byrja að sjóða aftur og lækkið þá niður í pottinum og látið krauma létt. Setjið klukku á 35 mínútur og hrærið mjög reglulega í pottinum. Þegar 15 mínútur eru eftir þarf að standa við pottinn og hræra mjög reglulega. Skerið möndlurnar smátt og blandið saman við grautinn. Nú fer grauturinn inn í ísskáp í sex klukkustundir eða yfir nótt helst.
Rjómablandan
2 bollar rjómi
¼ bolli sykur
2 msk. vanillusykur
1-2 msk. vanillu-paste (ekki vanilludropar)
Aðferð:
Takið grautinn úr kæli 4-6 klst. áður en byrjað er að undirbúa rjómablönduna. Þeytið rjómann. Þegar hann er farinn að þykkna skal bæta sykri, vanillusykri og vanillupaste saman við. Hrærið nú aðeins í grautnum ykkar til þess að lífga hann hægt og rólega við eftir ísskápsdvölina. Blandið rjómablöndunni varlega saman við þar til grauturinn fær á sig fallega áferð án nokkurra köggla. Berið fram með heitri kirsuberjasósu, kanilstöng og myntulaufi til skreytingar.
Þessa uppskrift, sem og aðrar, má finna í blaðinu Hátíðarmat frá Hagkaup.