28. Nóvember 2024
Smjörsprautað fyllt kalkúnaskip
Matarmenn kalla kalkúnaskipið okkar „kalkúnn drauma þinna“ sem er einstaklega þægilegt að matreiða því að það er búið að vinna nánast alla vinnuna fyrirfram. Eina sem þarf að gera er að setja það í fat, krydda og setja inn í ofn.
Uppskrift
Kalkúnaskipið er sett inn í ofn á 140° þar til hann nær 60° kjarnhita og setja svo á 180° þar til 72° er náð. Þarna tryggið þið hæga eldun og safaríkan kalkún. Hvílið hann í 30+ mín.
Sósa
100 gr smjör
2 laukar
200 gr kastaníusveppir
500 ml rjómi
100 gr rjómaostur Philadelphia
Kjötkraftur í 230 ml vatni
Sósulitur eftir smekk
Salt og pipar eftir smekk
Skerið niður laukinn og kastaníusveppina, hitið pönnu á miðlungsháum hita og bræðið smjörið. Setjið laukinn á pönnuna og steikið þar til hann verður mjúkur í gegn, setjið til hliðar. Sveppirnir fara nú á pönnuna, steikið þar til vökvinn fer úr sveppunum. Bætið í framhaldinu lauknum ásamt smjörinu í skálinni saman við og steikið þar til sveppirnir eru orðnir fallega brúnir. Nú fer krafturinn saman við og leyfið að sjóða niður á miðlungshita í um 45 mínútur. Setjið nú rjóman saman við og hrærið vel, rjómaosturinn fylgir svo í kjölfarið. Leyfið þessu að malla í um 10 mínútur. Saltið og piprið eftir smekk og bætið við sósulit ef þið viljið.
Waldorf salat
2 dósir sýrður rjómi
180 gr majones
Vínber rauð/græn eftir smekk
2 stk græn epli
Valhnetur eftir smekk
1 tsk sykur
Sjávarsalt eftir smekk
Súkkulaðispænir
Skrælið og skerið eplin ásamt vínberjunum til helminga. Blandið sýrðum rjóma og majonesi í skál ásamt sykri og salti. Bætið eplum, vínberjum saman við ásamt söxuðum valhnetum. Stráið nú smá sjávarsalti og súkkulaðispænum yfir og geymið í ísskáp þar til framreitt.
Fylling
16 bollar fransbrauð
3 bollar laukur
3 bollar sellerí
1 bolli brætt smjör
1/2 bolli hænsnasoð (1 teningur hænsnakraftur og 120 ml vatn)
2 tsk salt
1 tsk kalkúnakrydd
1 tsk Salvía
1tsk Hvítur pipar
1 tsk Paprikuduft
Skerið skorpuna af fransbrauðinu, gott að gera 3-4 sneiðar í einu til að spara sér smá tíma og skerið svo brauðsneiðarnar í teninga. Skerið niður sellerí og laukinn. Bræðið á pönnu smjör og bætið lauknum og selleríi saman við þar til allt er farið að mýkjast vel. Í stóra skál skal setja brauðteningana og strá kryddunum yfir. Hellið nú öllu af pönnunni yfir brauðteningana ásamt kjúklingasoðinu og hrærið vel saman. Setjið í bökunarform og bakið í 20 mínútur á 180°C blæstri.