hagkaup matur lambalæri páskar uppskrift

16. Apríl 2025

Hægeldað lambalæri er fullkomin páskamáltíð

Það er fátt sem kallar meira á notalegar, hátíðlegar stundir með fjölskyldunni en hægeldað lambalæri sem ilmar um allt heimilið. Hér er uppskrift að hægelduðu lambalæri með kartöflugratín og piparostasósu - dásamleg páskamáltíð sem slær alltaf í gegn.

Uppskrift:
Lambalæri, ca. 3 kg
Salt og nýmalaður pipar
1 msk lambakjötskrydd (t.d. Bezt á lambið)
Ólífuolía
3 stórir laukar, grófsaxaðir
1 heill hvítlaukur, skorinn í tvennt
2 fenníkur, skornar í fernt
3 sellerístilkar, grófsneiddir
5 gulrætur
1 rauð paprika
700 ml grænmetissoð
Ferskar kryddjurtir: tímían, rósmarín og steinselja

Aðferð:
Hitið ofninn í 120°C. Veltið lambalærinu upp úr ólífuolíu og kryddið með salti, pipar og lambakjötskryddi. Setjið allt grænmetið með í stóran steikarpott eða eldfast mót. Hellið grænmetissoðinu yfir og lokið pottinum eða þekið með álpappír. Eldið í ofni í 7 klst. Þegar 30 mínútur eru eftir, takið lokið af, bætið við fínsöxuðum kryddjurtum og hækkið hitann í 200°C svo puran verði stökk og gullin. Leyfið kjötinu að hvíla í a.m.k. 20 mínútur áður en það er borið fram.

Ljúffengt kartöflugratín

Uppskrift
900 g bökunarkartöflur
8 dl rjómi (helminga matreiðslurjómi og venjulegur rjómi)
1 laukur, skorinn í strimla
1 kjúklingateningur
1 msk blandað krydd (t.d. Bezt á allt)
Salt og pipar
Rifinn ostur

Aðferð:
Skerið kartöflurnar í ca. ½ cm sneiðar. Steikið laukinn létt í smjöri, bætið síðan kartöflum, rjóma, kjúklingateningi og kryddi út í. Látið malla í 10–15 mínútur þar til kartöflurnar eru mjúkar. Setjið í eldfast mót, stráið rifnum osti yfir og bakið við 200°C í 20 mínútur, þar til osturinn er gullinbrúnn.

Piparostasósa með sveppum

Uppskrift:
1 msk smjör eða olía
250 g sveppir, skornir
1–2 tsk lambakjötskrydd
0,5 l rjómi
½–1 piparostur (skorinn smátt)
½ kjúklingateningur

Aðferð:
Steikið sveppi í smjöri við vægan hita í nokkrar mínútur. Kryddið og bætið rjóma og piparosti saman við. Látið malla þar til osturinn er bráðnaður og sósan orðin þykk og djúsí. Bætið kjúklingateningnum saman við í lokin.

Hvort sem það er páskadagur eða sunnudagsveisla, þá er lambalæri er alltaf svo hátíðlegt og gott. Njótið vel og gleðilega páska 🐤

hagkaup matur lambalæri páskar uppskrift