Síðasti dagur til að panta í vefverslun og fá afhent fyrir jól er 18. desember

13. Mars 2024

Kransakaka

Helgu Möggu finnst kransakaka alveg ómissandi á veisluborðum í fínum veislum. Í fyrsta skipti sem hún bakaði kransaköku gerði hún prufu og mælir með því að baka nokkra hringi og sjá hvernig það kemur út, áður en farið er í eitthvað stórt verkefni. Hún bakaði og skreytti æðislega kransaköku og deildi henni með okkur.

Það er mælt með því að baka kransakökuna tímanlega og fyrsta hana. Hún verður betri þannig. Ég tek hana svo út úr frystinum kvöldinu áður en ég ætla að skreyta hana eða að morgni. En það má líka baka hana deginum áður og láta hana þá standa á borði yfir nótt og skreyta daginn eftir. Ég mæli þó með því að baka og frysta, hún verður betri þannig, áferðin á henni. 

Uppskrift 14-16 hringir:
1 kg kransakökumassi (þetta bleika)
500 g sykur
2 eggjahvítur

Uppskrift 18 hringir: 
1,5 kg kransakökumassi (þetta bleika)
750 g sykur
3 eggjahvítur

Glassúrinn
1 eggjahvíta
Flórsykur (misjafnt hversu mikið)
Sítrónusafi nokkrir dropar

Þú byrjar á að hræra massanum og sykrinum aðeins saman í hrærivél eða matvinnsluvél og setur svo eggjahvíturnar út í og hrærir áfram. Massinn á að vera þéttur og ekki of blautur. Ef eggin eru stór gæti verið gott að nota aðeins minna af eggjahvítunum. Ég læt svo massann standa í kæli yfir nótt áður en ég baka úr honum eða kæli í nokkrar klukkustundir.

Svo er að hefjast handa við að búa til hringina, þú skerð smá part af massanum og rúllar í lengjur og notar reglustriku eða málband til að mæla þykktina, lengjan á að vera 1,5 cm á breidd. Ég nota aldrei form þegar ég bý til kransaköku, en í Hagkaup er hægt að kaupa kransakökuform til að einfalda sér vinnuna. 

Kransakökuform

Þú rúllar lengjunni svo hún verði 1,5 cm á breidd, og klappar svo með lófanum öðru megin á endann til að mynda kransakökuformið (sjá myndband á instagram). 

Þú tekur svo reglustrikuna og mælir fyrsta hringinn 10 cm langan. Þú bætir svo við 3 cm fyrir næsta hring, 13 cm lengja, 16 cm lengja, 19 cm lengja og svo framvegis. 

Mér finnst mjög mikilvægt að skrifa niður á blað þessar tölur, 10, 13, 16, 19, 22, 25, 28, 31... og merkja svo við á blaðið um leið og þú ert búin að búa til hringinn. Trúðu mér þú munt annars ruglast og það er mjög leiðinlegt að vera búin að baka kökuna og gleyma einni hæð. 

Þú tekur svo lengjurnar og býrð til hringi, ég er með smá vatn í skál og nota 1-2 dropa til að loka sárinu ef ég þarf á því að halda. Settu svo hringina á plötu og reyndu að raða þeim vel með smá bil á milli hringja. Ekki baka hringi innan í öðrum hringjum, settu frekar á fleiri plötur. 

Mér finnst mjög sniðugt þegar ég set hringina á bökunarplötuna að skrifa á bökunarpappírinn við hvern hring hversu langur hann er, bæði til að tvítryggja að þú sért búin að gera alla hringina og einnig ef einhver hringur yrði of dökkur eða myndi skemmast einhverra hluta vegna, þá veistu nákvæmlega hvaða hring þú þarft að baka aftur. Það er mjög erfitt að sjá hvað hver hringur er langur í cm talið þegar hann er orðinn samansettur í hring og einnig þegar búið er að baka hann. 

Annað sniðugt þegar þú setur hringina á bökunarplötu og þeir eru orðnir smá stórir þá er sniðugt að setja skál eða eitthvað hringlaga innan í til að passa að hringurinn verði sem réttastur (sjá myndband).

Áður en þú bakar hringina er líka sniðugt að horfa á þá á hlið og dúmpa aðeins ofaná þá með blaðinu á hníf eða öðru sléttu ef þú sérð einhverjar misfellur svo kakan verði sem réttust þegar henni er raðað saman.

Bakað við 190 gráður í um 11-13 mínútur. Þú þarft samt að fyljgast vel með þegar um 9/10 mínútur eru liðnar og passa að hringirnir verði ekki of dökkir. Lengdin á bakstrinum snýst eingöngu um litinn, við viljum að hringirnir séu ljósbrúnir, en það er einnig smekksatriði eins og svo margt annað. 

Kakan er svo fryst og tekin út kvöldinu áður en hún er skreytt eða sama morgun. Ég er yfirleitt að skreyta kransakökuna daginn fyrir veisluna. 

Þú þeytir þú saman glassúrinn, ein eggjahvíta, flórsykur og nokkrir dropar af sítrónusafa, gott að sigta hann út í. Þú setur flórsykur út í skálina þar til blandan fer að þykkna og verður teygjanleg. Ég sýni í vídjóinu þykktina. Ef glassúrinn er of þykkur þá bætir þú meiri sítrónudropum út í og ef hann er of blautur þá bætir þú meiri flórsykri út í. 

Áður en þú byrjar að sprauta glassúrnum á kökuna er mikilvægt að raða henni upp og skoða hvort allir hringirnir séu ekki til staðar. Þú byrjar að sprauta á neðsta hringinn, setur smá glassúr undir til að festa hann við diskinn og sprautar svo á kökuna. Einn hring í einu, leggur svo næsta hring ofaná og heldur áfram, þannig festist kakan saman. 

Það skiptir eiginlega engu máli þó að hringirnir séu mislitir, það sem mér finnst persónulega skipta mestu máli er glassúrinn á kökunni, að hafa línurnar mjóar. En allt er þetta spurning um smekk hvers og eins. Engar áhyggjur ef eitthvað lítur ekki nógu vel út, þú getur tekið nýsprautaðan glassúr af kökunni með klút eða með puttanum og sprautað aftur á. Eftirá er alltaf hægt að fela misfellur með skrauti. Það má líka sjást að kakan sé heimagerð, það er sjarmi yfir því. 

Það er skemmtilegt að baka kransaköku sjálfur, ódýrt, en vissulega tekur það smá tíma. Skemmtilegt að baka saman með fermingarbarni og leyfa því að velja skrautið sem fer á kökuna. Ég elska að skreyta kökur með lifandi blómum, alltaf gott þegar notuð eru lifandi blóm að setja þau á kökuna stuttu fyrir veisluna, amk. ekki kvöldinu áður. 

Ég komst nýlega að því að brúðarslör á kökur er ekki ráðlagt nema að vefja stilknum á blóminu í plast eða blómalíband. Rósir eru þó öruggar. Einnig er hægt að skreyta kökuna með hverju sem þér dettur í hug. 

Ekki hika við að senda mér spurningar á instagram ef eitthvað er óljóst. 

Það er hægt að gera ýmislegt annað en hina hefðbundnu kransaköku, hér er t.d. mynd af köku sem ég gerði fyrir tengdamömmu mína þegar hún átti afmæli. Ég gerði þessa minnir mig úr 500 g af marsípani (hálfa uppskrift) gerði 3 jafnstór hjörtu og nokkra kransaköku bita með.