Síðasti dagur til að panta í vefverslun og fá afhent fyrir jól er 18. desember

matarsóun, minnkum matarsóun

23. Ágúst 2023

Minnkum matarsóun

Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest að heimsbyggðin framleiðir meira en nóg af mat fyrir alla íbúa jarðar og því ætti enginn að þurfa að þjást af matarskort. Matarskortur er engu að síður hnattrænn vandi sem orsakast að stóru leiti af þeirri gríðarlegu matarsóun sem á sér stað í heiminum. Áætlað er að um það bil 1,3 milljarðar tonna af mat til manneldis sé hent á ári hverju.

Markmið Hagkaups er að engum matvælum sé hent nema allt hafi verið reynt til að bjarga þeim. Fyrsta skrefið í átt að þessu markmiði er bæting pöntunarferla, en mistök í pöntunum geta leitt til umframbirgða og óþarfa matarsóunar. Árið 2022 hóf Hagkaup innleiðingu á sjálfvirkum íslenskum pöntunarhugbúnaði sem ber heitið AGR. Þessi hugbúnaður aðstoðar okkur við að framkvæma réttari pantanir, fækka mannlegum mistökum og lágmarka þannig þau tilfelli þar sem ráðast þarf í verðmætabjörgun.

Til að sporna enn frekar við matarsóun hefur Hagkaup innleitt verkefni í verslunum sínum undir yfirskriftinni „Minnkum matarsóun“, en þar eru ferskvörur með stuttum líftíma seldar með 20%- 90% afslætti. Þá veitir fyrirtækið einnig 50% afslátt af sushi og eldgrilluðum kjúkling eftir kl.20:00 á kvöldin.

Viðskiptavinir Hagkaups hafa tekið virkilega vel í verkefnið og í flestum tilfellum rjúka þessar vörur úr hillum okkar. Árið 2022 seldust vörur undir formerkjunum „Minnkum matarsóun“ fyrir tæpar 30 milljónir króna, en þetta er rúmlega 45 prósent hækkun frá árinu á undan. Ávinningur verkefnisins er margþættur. Viðskiptavinum okkar bjóðast ekki einungis vörur á góðu verði, heldur stuðlar minni matarsóun einnig að aukinni sjálfbærni og styður við að draga úr þessum samfélagslega vanda sem heimsbyggðin öll glímir við.