21. Nóvember 2024
Nautalund með bearnaise sósu og kartöflugratíni
Uppskrift
Nautalund
Smjör
Salt
Pipar
Skerið nautalundina í jafnar steikur og leyfið kjötinu að velgjast við stofuhita. Gott er að taka kjötið út 4-5 klst fyrir eldun. Hitið steypujárns/stálpönnu á miðlungsháum hita, þegar pannan hefur náð góðum hita er sett smá smjörklípa á pönnuna.
Hitið ofninn í 140°C blástur. Steikurnar skal steikja í eina og hálfa mínútu ca. á hvern kant. Til þess að fá góða ‘’skorpu’’ á steikina skal passa að pannan haldist vel heit en alls ekki of heit! Verið ófeimin að bæta við smjöri við og við.
Þegar þú ert orðinn sátt/ur við áferðina á steikunum fara þær inn í ofn og klára sína eldun í rólegheitunum. Takið út í 52-54°C fyrir medium rear/ 56-58°C fyrir medium eldun. Leyfið nú steikunum að hvíla í að minnsta kosti 10 mínútur.
Kartöflugratín
4 bökunarkartöflur
12 sneiðar þykkt beikon
2 laukar
1 Stk rifinn piparostur
600 ml matreiðslurrjómi
1 poki rifinn gratínostur
2 hvítlauksgeirar
Salt og pipar eftir smekk
Fersk steinselja eftir smekk
Hitið ofninn við 200°C blástur og pönnu á miðlungsháum hita.
Skerið kartöflurnar í þunnar jafnar sneiðar, laukinn smátt, beikonið í jafna bita og rífið piparostinn. Á pönnunni steikið þið beikonið þar til það verður stökkt og fallegt, setjið til hliðar. Laukurinn er svo steiktur upp úr beikonfitunni og hvítlauknum bætt saman við þegar laukurinn er farinn að mýkjast. Raðið kartöflunum í eldfast mót, saltið og piprið yfir, setjið nú hluta af lauknum og beikoni yfir ásamt rifna piparostinum. Endurtakið þar til hráefnið er búið, passið þó að piparosturinn klárist undir kartöflunum.
Að lokum hellið þið rjómanum yfir og setjið inn í ofn í 50 mínútur. Takið þá fatið út og stráið gratín ostinum yfir. Leyfið að eldast þar til osturinn er orðinn bráðinn. Steinseljan fer svo yfir í lokin áður en gratínið er borið fram.
Gljáðar gulrætur
10 Gulrætur
Ólífuolía
Salt og pipar eftir smekk
Agave síróp
Hitið ofninn í 180°C blástur. Skerið gulræturnar í helminga endilangt og raðið í eldfast mót. Dassið ólífuolíu yfir gulræturnar, saltið og piprið og hristið mótið svo allar gulræturnar séu þakktar olíu. Setjið nú gulræturnar inn í ofn í 30 mínútur. Eftir 30 mínútur takið þið þær út og hellið sírópi yfir þær og leyfið svo að fara aftur inn í ofn í 15-20 mínútur.