4. Desember 2024
Veldu þinn uppáhaldsmola frá Nóa Síríus í Hagkaup
Nóa konfekt er fyrir löngu orðið ómissandi hluti af jólahefðum stórs hluta þjóðarinnar, enda snúast jólin að miklu leyti um hefðir og hátíðleika. Hægt verður að kaupa sérvalið Nóa Konfekt í Hagkaup Smáralind aðeins laugardaginn 7. desember, milli klukkan 12 og 16.
Þá er það einnig orðin venja hjá ansi mörgum að stelast í konfektkassann við hin ýmsu tækifæri, því öll eigum við okkar uppáhaldsmola. Nú gefst fólki tækifæri á að velja eingöngu uppáhaldsmolana í konfektkassa fyrir sjálft sig eða þau sem standa hjarta þess næst. Eftir einstaklega vel heppnaðan viðburð í fyrra ætla Nói Síríus og Hagkaup að endurtaka leikinn og bjóða viðskiptavinum að velja uppáhaldsmolana sína í konfektkassa aðeins þennan eina dag, laugardaginn 7. desember í Hagkaup Smáralind
Lilja Björg Gísladóttir, sérfræðingur markaðsmála hjá Hagkaup segir starfsfólk Hagkaups spennt fyrir helginni. ,,Við erum virkilega ánægð að geta boðið viðskiptavinum okkar uppá að velja sína uppáhalds Nóa Síríus konfektmola fyrir jólin. Þetta samstarfsverkefni með Nóa Síríus var prufukeyrt fyrir jólin 2023 og gekk vel, svo það er sannarlega gaman að fá að taka þátt í þessu aftur í ár.“ Lilja bætir því við að aðsóknin hafi farið fram úr vonum í fyrra og eftirspurnin mikil ,,fólk flykktist í verslun okkar í Smáralind fyrir síðustu jól til þess að velja sér mola og við fengum fyrirspurnir um að endurtaka leikinn í þó nokkra daga á eftir. Það verður því spennandi að sjá hvernig aðsóknin verður í ár, en við erum tilbúin að taka á móti súkkulaðiunnendum landsins í Hagkaup Smáralind á laugardaginn.“
Anna Fríða Gísladóttir, framkvæmdastjóri markaðssviðs Nóa Síríus er spennt að taka á móti viðskiptavinum „Á laugardaginn mun starfsfólk Nóa Síríus taka vaktina í Hagkaup, og það er mikil tilhlökkun hjá okkur að bjóða viðskiptavinum upp á þessa þjónustu og komust færri frá okkur að en vildu“. Aðspurð hvaða moli er vinsælastur, svarar Anna Fríða að það sé mismunandi á milli einstaklinga. Sumir einstaklingar eru marsipan megin í lífinu á meðan aðrir kjósa fyllta mola. Á laugardaginn gefst fólki því möguleika á að búa til sérsniðinn konfektkassa úr íslensku gæðasúkkulaði enda „fátt fallegra en að gefa sérsniðna gjöf handa þeim sem þér þykir vænt um.“ segir Anna Fríða. Hún bætir því við að „fyrst og fremst erum við þó þakklát fyrir þann heiður að spila jafn stórt hlutverk í hátíðarhöldum landsmanna og sérstaklega er gaman að sjá hversu mörg okkar eiga sinn uppáhalds konfektmola.“