Vinsamlegast ath!

Á Tax free getur verið seinkun á afhendingu pantana úr vefverslun.

4. Nóvember 2024

Brakandi purusteik

Margir tengja purusteikina við jólin og því ekki seinna vænna en að koma með brakandi djúsí uppskrift af purusteikinni og með því frá Matarmönnum. Þeir segja að með þessari aðferð ætti að vera hægt að ná purusteikinni alveg fullkominni!

Uppskrift
1,5 kg purusteik
1,5 ltr vatn
Fínt salt
Negulnaglar
Rósapipar
Ferskt timian
Þurrkuð lárviðarlauf

Aðferð
Hitið ofninn í 140°C blástur.

Setjið vatnið, dass af salti, nokkra negulnagla, dass af rósapipar, nokkur lárviðarlauf og slatta af ferskum timian í eldfast mót.

Með beittum hníf skal skera rákir í fituna en passa þó að skera ekki í gegnum fituna. Saltið yfir kjötið sem snýr nú upp og nuddið saltinu í. Leggið purusteikina með fituna ofan í vatnið og setjið inn í ofn í 30 mínútur.

Nú er tilvalið að græja sósu og undirbúa meðlæti. Eftir 30 mínútur skal taka taka eldfasta mótið úr ofninum, snúa steikinni við þannig að fitan snúi upp og leyfa henni að fara aftur inn í ofn í 30 mínútur. Að 30 mínútum liðnum skal taka eldfasta mótið út með steikinni. Saltið fituna ágætlega vel en passið þó að missa söltunina ekki út fyrir velsæmismörk.

Hækkið ofninn upp í 230°C blástur.

Stingið negulnöglum inn á milli rákanna ásamt lárviðarlaufum og setjið steikina aftur inn þegar ofninn hefur náð hitanum. Gott er að miðast við að þegar steikin nær 55°C kjarnhita að þá er gott að setja ofninn enn hærra (250°c og breyta í efri grill stillinguna og blástur).

Nú er mikilvægt að standa við glerið og horfa á flugeldasýninguna því ekki viljum við brenna puruna okkar. Takið steikina út þegar kjarnhita 63°C er náð. Leyfið henni að hvíla í um 15 mínútur áður en skorið er í hana til þess að tryggja gæðin.