19. Desember 2024

Jólakræsingar Helgu Möggu

„Við fjölskyldan erum alltaf með kalkún á jólunum og yfirleitt er það smjörsprautaða kalkúnaskipið frá Hagkaup sem verður fyrir valinu. Það er fljótlegt og einfalt enda er oft mikið að gera á heimilinu með þrjú börn. Meðlætið er misjafnt hjá okkur en ég er yfirleitt með sætkartöflumús og svo er fyllingin ómissandi,“ segir Helga Margrét Gunnarsdóttir næringarþjálfari sem deilir hér skemmtilegum hollum uppskriftum fyrir jólin.

Kalkúnaskip
2 kg kalkúnaskip úr Hagkaup
1 ferna brún sælkerasósa frá Íslandssósum
1 bréf Tasty-kalkúnasósugrunnur
1 teskeið dijonsinnep

Kalkúnaskipið er einfalt í eldun og mælt með því að elda það í lokuðu fati. Gott er að skafa kryddsmjörið af sem verður eftir í umbúðunum og smyrja því á kalkúninn. Hann er eldaður eftir leiðbeiningum á pakkanum í 45 mín á kíló. Ég er oftast með um 2 kg fugl og þá finnst mér óþarfi að ausa yfir hann meðan á elduninni stendur, aðeins um 1,5 klst., en ef ég er með þyngri og stærri fugl er ágætt að ausa smá af því sem lekur af honum einu sinni meðan á elduninni stendur.

Ég er með einfalda sósu; 500 ml tilbúna sælkerasósu sem ég blanda saman við Tasty-kalkúnasósugrunn. Set helminginn af grunninum, blanda honum saman við 200 ml af vatni. Mjög gott að blanda smá dijonsinnepi saman við.

Sætkartöflumús
1 stór sæt kartafla 7-800 g
50 g rjómaostur
2-3 msk. hunang
1 tsk múskat salt og pipar

Kartaflan afhýdd og gufusoðin þar til hægt er að stinga gaffli í gegnum hana, um 25 mínútur. Það er hægt að stappa kartöflurnar í skál og blanda svo öllum innihaldsefnunum saman við eða nota blandara eða töfrasprota í verkið.

Fylling
„Ég veit ekki hvaðan þessi uppskrift kemur, en ég er með hana skrifaða á miða hér heima. Ég hef búið hana til á hverju ári undanfarin 13 ár eða svo."

150 g beikon í sneiðum
100 g smjör
2 laukar, saxaðir
1-2 sellerístönglar, saxaðir 1 stórt brauð
100 g pekanhnetur, grófsaxaðar
1 tsk salvía, þurrkuð eða fersk
½ tsk. salt
½ tsk pipar
2 egg
200 ml kjúklingasoð
½ tsk. timían

Beikonið steikt þar til það er stökkt, það er svo skorið smátt. Smjörið er á meðan brætt í potti. Laukur og sellerí steikt í smjörinu þar til það er orðið mjúkt. Brauðið skorið í bita, skorpan skorin af, brauðbitum, hnetum, salvíu, timíani, pipar og salti bætt út í og öllu hrært saman. Potturinn tekinn af hitanum og þetta látið kólna örlítið. Eggjunum og soðinu er svo blandað saman við. Sett í eldfast mót og svo hitað áður en það er borið fram. Ég geri þessa fyllingu oft á þorláksmessu, það kemur svo dásamlegur ilmur í húsið. Einnig er hægt að gera hana með meiri fyrirvara og frysta.