3. Janúar 2022
Vegan pepperóní sem slær í gegn
Happyroni er ferskt álegg fyrir vistkera sem er bæði hollt fyrir menn og náttúru
Sprotafyrirtækið The Optimistic Company hefur undanfarið ár unnið að þróun á grænkera vörum fyrir íslenskan markað. Fyrsta vara fyrirtækisins, Happyroni er nú komin í sölu í verslunum. Greinilegt er að vistkerar kunna vel að meta að geta keypt sér kjötlíki sem að margt er líkt pepperoni þar sem að varan hefur verið mjög vinsæl bæði í verslun og á veitingastöðum.
„Við höfum unnið að þróun á Happyroni í töluvert langan tíma og fengum meðal annars styrk úr Uppsprettunni, nýsköpunarsjóði Haga, sem að hefur hjálpað okkur mikið í vöruþróuninni. Markmið The Optimistic Company er að þróa ferskar íslenskar vegan vörur sem eru próteinríkar, bragðgóðar og úr hágæða hráefni“ segir Friðrik Guðjónsson stofnandi The Optimistic Company.
Happyroni er betra fyrir umhverfið
„Happyroni er kjötlaust Pepperoni sem að hentar í alla matargerð en hefur verið sérstaklega vinsælt á pizzur. Varan er 28% prótein og 16% kolvetni og því í flestum tilfellum hollari valkostur en aðrar sambærilegar vörur á markaðnum. Á Íslandi eru kjötlausar vörur í flestum tilfellum innfluttar og frystar. Við áttum því alveg von á því að slík fersk vara myndi njóta vinsælda þar sem að lítið er um svona vörur á markaðnum en móttökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum, bæði í verslunum og á veitingastöðum. Einnig eru sífellt fleiri sem velja sér vistvæna kosti í matargerð og fellur Happyroni vel að slíkri hugmyndafræði enda hollt bæði fyrir menn og náttúru. “ segir Friðrik
Innlend framleiðsla
Friðrik leggur mikla áherslu á að framleiðslan sé innlend og að sömuleiðis sé leitast við að nota innlent hráefni eins og kostur er. „Við erum með sterka samstarfsaðila með okkur í framleiðslu, sölu og dreifingu á nýju vörulínunni en einnig höfum við verið í miklu samstarfi við Haga í kjölfarið á styrkveitingu úr nýsköpunarsjóðnum Uppsprettunni. Happyroni er til sölu í öllum verslunum Haga um allt land. Við höfum metnaðarfull plön í vöruþróun hjá The Optimistic Food Company og það er virkilega hvetjandi fyrir framhaldið hversu vel Happyroni hefur verið tekið. Það er greinilegt að fullt af tækifærum eru í matvælaþróun til framtíðar“